fbpx

Sérferð fyrir eldri borgara 29. september til 5. október 2021

Ferðatilhögun

Mæting er á bílastæði N1 við Ártúnshöfða kl. 06.15 og brottför þaðan kl. 06:30, Reykjavík-Seyðisfjörður.  Ekið verður með nýtísku rútbifreið norður leiðina og fyrsta stop er í Staðarskála.
Næsta stop verður á Akureyri um kl. 12.00 þar sem hópurinn snæðir hádegismat á Greifanum við Glerárgötu. Næst er stoppað á Skútustöðum og þar næst á Skjöldólfsstöðum  í Jökuldal þar sem við þiggjum kaffi og vöfflur. Þaðan er svo ekið til Seyðisfjarðar og komið þangað fyrir kl. 18.00. Farþegar stíga úr rútunni og um borð í ferjuna Norrænu. Kvöldverðarhlaðborð hefst fljótlega eftir að komið er um borð og ferjan siglir svo kl. 19.00 áleiðis til Færeyja.  Áætlaður siglingartími er 18 klst.

Komið daginn eftir til Þórshafnar og ekið með rútu stuttan spöl að Hótel Brandan 4* þar sem gist verður meðan á dvölinní Færeyjum stendur. Tveggja rétta kvöldverður er snæddur öll kvöld kl. 19.00 og annað slagið eru haldin ávörp, farið með gamanmál eða spilað bingo. Daginn eftir komuna er haldið yfir eyjarnar til Klaksvíkur og þá ekið í gegnum nýju jarðgöngin sem opnuðu í desember 2020 og liggja frá Þórshöfn að Tóftum, nálægt Rúnavík.  Í Klaksvík verður dómkirkjan skoðuð (sé hún ekki upptekin) og hægt verður að kaupa sér hádegisverð á veitingastað í bænum.  Ekið til baka um Fuglafjörð og þaðan í Götu þar sem Þrándur verður augum barinn. Eftir það verður ekið inn á Vogey að Gásadal þar sem 15 íbúar eru skráðir um þessar mundir og eftir það til Þórhafnar þangað sem komið verður síðdegis. Daginn eftir (laugardag) verður frjáls dagskrá en fararstjóri mun ganga um Tinganes með farþegum og segja frá sögu húsanna þar og einnig verður dómkirkjan skoðuð.  Á sunnudegi verður ekið til Kirkjubæjar sem er sögustaður Færeyinga líkt og Þiingvellir okkar Íslendinga. Þar verða rústir krikjunnar sem er frá miðöldum skoðaðar og önnur hús á staðnum. Einnig verður boðið uppá hádegisverð í Kirkjubæ hjá þeim Jóannesi Paturssyni og Guðríði konu hans. Hús þeirra er elsta timburhús sem búið er í, í Evrópu og á sér sögu frá 18. öld. Á leiðinni að Kirkjubæ verður stoppað stuttlega í Norðurlandahúsinu og einnig ekið um Þórshöfn þar og stoppað á stöðum þar sem gott útsýni er yfir bæinn.  Heimferð er á mánudegi og ekið að höfninni með rútu frá hótelinu á tilteknum brottfarartíma um/eftir hádegi.  Norræna leggur úr höfn e.h. og kemur til Seyðisfjarðar að morgni þriðjudags.  Eftir tollskoðun á Seyðisfirði fá farþegar að stíga frá borði í rútu sem ekur þeim áleiðis til Reykjavíkur um suðausturland en áætluð koma til Reykjavíkur er kl. 21-21.30.  Á leiðinni verður stoppað til að fá sér hádegisverð og stutt stop verða gerð til að fara á salerni o.s.frv.  Farþegar sem eiga heima á þéttbýlisstöðum á Suðurlandi geta óskað eftir að yfirgefa hópinn og ljúka ferð sinni áður en komið verður til Reykjavíkur.

Verð: kr. 194.500 á mann

Innifalið: Allar rútuferðir skv. ferðalýsingu og gisting í 2ja manna káetum um borð í Norrænu báðar leiðir ásamt morgunverði. Hádegisverður á leið til Seyðisfjarðar og kvöldverður á leið til Færeyja. Gisting á Hótel Brandan 4* í Þórshöfn ásamt morgunverði alla daga. 2ja rétta kvöldverður fimmtudag til sunnudags. Íslensk fararstjórn allan tímann. Máltíðir á leið til baka eru ekki innifaldar sem og alla drykki þarf að staðgreiða.

Skráning í ferðina fer fram með því að smella hér og senda okkur tölvupóst með nafni, síma og kennitölu.  Einnig er hægt að hafa samband við Ferðaskrifstofu eldri borgara í símum 783-9300 og 783-9301. Öllum fyrirspurnum um ferðina er svarað samdægurs.